fimmtudagur, ágúst 14, 2014

Vænghaf og hugarflug


Það er taugasálfræðilega áhugaverð blanda að skokka meðfram sjónum (helst í roki) með hrífandi tónlist í eyrunum. Mér finnst eins og ég hafi bloggað um þetta áður, svo merkilegt er þetta. Eitthvað furðulegt gerist þegar ég hreyfist í rýminu (súrefnisríku rými) og tónarnir flæða um líkamann og taktvissar hreyfingarnar setja hugann af stað. Ekki skal það bregðast að síðustu metrana þarf ég að gefa í af því að ný hugmynd hefur kviknað. Orðasamhengi og setningar hafa raðað sér upp á áhugaverðan hátt í takt við hugmyndina. Ný orð vilja tjá nýja hugsun. Um leið er ekkert nýtt undir sólinni. Þessar hugleiðingar kviknuðu rétt áðan:

Ég sit í flugvél sem tekur á loft. Hún hækkar smám saman flugið og brýst í gegnum skýin upp í himinblámann. Um leið og ljósið fyrir öryggisbeltin eru slökkt tilkynnir flugfreyjan í hátalaranum: ,,Kæru farþegar. Velkomin heim. Við tilheyrum himninum. Vinsamlegast losið öryggisbeltin. Hér er best að falla í frjálsu falli í faðm ástarinnar, þrárinnar eða Guðs. Því eins og Dante benti margoft á í paradísarkafla hins Guðdómlega gleðileiks þá eru himnarnir fullir af ást. Þeir eru fullir af okkur, núna, við erum ást. Allt er ást. Losið ykkur úr fjötrunum, standið upp og látið ykkur falla. Velkomin heim."

Þannig er það nú.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég get ekki að því gert að oft hríslast öfundin um mig þegar ég les orðin þín.

Hafrún