Hef ekkert að segja, hér er sól og flóð af fólki sem ráfar um göturnar. Hími yfir leikriti, laga og færi til og breyti. Ég les upphátt, prufa hlutverkin til að átta mig á hljóminum og taktinum. Ef nágrannar sjá mig inn um gluggann þá furða þeir sig eflaust á þessum hamagangi og skjálftanum í stúlkunni þarna hinum megin. Svei mér þá held ég þurfi að panta leiklestur til að átta mig á þráðunum, áður en ég læt ræsa prentvélarnar (ef þetta er leikbært og prenthæft). Langar svo að hefja jaðarútgáfu leikrita, setja á bók texta í biðstöðu, texta sem eiga heima annars staðar og vilja lifna við, tímabundinn stjarfi.
Hingað kom með mér bókin Steingerð vængjapör eftir Tor Ulven. Fletti tvisvar af handahófi og kem tvisvar niður á sama ljóðið, leyfi því að fylgja hér (þýðandi er Magnús Sigurðsson):
Sittu hjá mér
vina, segðu frá
þeim dögum þegar
ég verð
ekki til.
1 ummæli:
Hvers vegna er ekki like takki á bloggsíðum? Hvers vegna gerir sumt kröfu til þess að maður komi hugsunum í orð í stað þess að smella á takka?
Mig langar í þessa ljóðabók.
Hafrún
Skrifa ummæli