Fór á tónleika í gær. Þrjú hljóðfæri (held ég) og tveir flytjendur. Orgel, rafmagnssnúrur og dót á borði og ótrúlega fallegt lítið, spes og gamaldags rafmagnspíanó. Verkið var nánast einn samfelldur hljómur í klukkutíma. Ágengar hljóðbylgjur sem hjúpa. Til skiptis óþægilegt og svæfandi.
En vildi segja annað.
Ráfaði um daginn í kringum hjartakirkjuna á Montparnasse hæðinni og settist í lítinn garð. Þar voru stálpaðir krakkar að hlaupa um og leika sér. Þau voru að stríða hvert öðru, halda, þvinga, biðja um frelsi og ekki veita frelsi, setja mörk en ekki virða þau, læra að mörk eru ekki virt. Ég þekki svo vel svona leiki. Þeir virðast saklausir en mér finnast þeir stórhættulegir. Og þessi setning poppaði upp: Að setja ekki mörk eru ofbeldi gegn manni sjálfum - að virða ekki mörk er ofbeldi gegn öðrum.
Hitti börnin mín bara á netinu þessa dagana og sakna þeirra óendanlega mikið. Fæ að faðma þau um miðjan júlí og hlakka mikið til. Um daginn hringdi ég í dótturina og hún sagði: ,,Því miður er ég núna að borða svo ég get ekki talað við þig núna. Það er matartími." Ég verð sjaldan eins stolt og þegar dóttir mín setur mér mörk. Og ég virði þau. Mér finnst það eitt það mikilvægasta sem hægt er að kenna og læra: að setja mörk, halda mörk og virða mörk. Í því er fólgin bæði sjálfsvirðing og virðing gagnvart öðrum.
Já og svo er það mildin. Orðið sjálfsmildi dúkkar stöðugt upp í kollinum á mér. Og brosmildi. Í mildinni er mýkt. Þarf að melta mildina betur, tala eflaust meira um hana seinna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli