Ég á stefnumót kl. 1 í nótt. Ég á að mæta við hliðið hér úti. Þá munu tvær konur koma og fara með mér að skoða rotturnar við Notre Dame. Þegar ljósin sem lýsa upp kirkjuna eru slökkt koma þær víst á stjá í hundruðatali. Það verða myndavélar.
Í gærkvöldi fór ég á sýningu á stuttri heimildarmynd um leiðangur til Anartika en það er landsvæði sem tilheyrir engri þjóð og er sameign allra. Fékk snert af heimþrá við að sjá landslag og rok sem minnir á Ísland. Eftir sýninguna kom kona frá Suður-Afríku að okkur finnsku konunni og sagði: ,,Á 10 dögum ætlum við að gera verkefni um brúðkaup Jóhönnu af Örk. Hún giftist aldrei, við þurfum að láta hana giftast. Við þurfum að búa til kjól." Við hinar sögðum auðvitað ,,Já, fínt." Verkefnið er ennþá að leita sér forms og ekki víst að Jóhanna verði með áfram en rotturnar vilja komast að.
Þess vegna á ég stefnumót í kvöld. Það verður spennandi að sjá hvað gerist. Best af öllu er að rjúfa (þó ekki sé nema öðru hverju) einangrunina, hina lamandi einangrun, sem fylgir því að skrifa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli