Hér í Frakklandi eru mánudagar Lundi og hvítvínið sem ég
keypti um daginn heitir Saumur. Sem er næstum því Straumur. Straumur er saumfar
þess sem flæðir. Vatn, rafmagn og kannski eitthvað fleira sem ég kem ekki auga
á. Straumfar. Flæðistraumur.
[Mynd af árbakka, nokkur blóm.]
Í gær fór ég að tvo ólíka viðburði sem tengjast skrifum,
útgáfu og bókum. Fyrst var það tveggja klukkutíma umræður útgefenda, kennara, umboðsmanns og bóksala um útgáfuheiminn og bóksölu. Einhver óljós forvitni rak mig af stað. Í salnum var fullt af alls konar fólki
en þegar spurningarnar fóru að flæða um greindi ég örvæntingu og ótta. Fólk
vildi vita hvað væri best að gera og vildi læra réttu trixin til að fá umboðsmann
og svo útgáfu og svo líka góða sölu. Öskubuskuþráin. Spurningar komu
fram eins og: Þarf höfundur að hafa heimasíðu? Hvernig er best að senda
handritið til umboðsmanns? o.s.frv. Ég gekk út og þessi spurning spratt fram og
ásækir mig enn: „Þurfum við að læra að þekkja strauminn til að geta fylgt
honum? Þurfum við að fylgja straumnum? Er það list?“ Flæðistraumur.
[Mynd af rykugum straumbreyti.]
Hinn viðburðurinn var öllu ánægjulegri. Á efri hæðinni í
bókabúðinni Shakespeare & Company var búið að raða upp stólum í örlitlu
rými. Um er að ræða eldgamla og sögufræga bókabúð sem selur bækur á ensku og
þær flæða upp um alla veggi. Flæðistraumur. Hillur og mublur eru eldgamlar og
alveg sérstakur andblær þarna inni. Kathryn Heyman hélt fyrirlestur í
klukkutíma undir yfirskriftinni „The Art & Carpentry of Fiction.“ (Kathryn
er ástralskur höfundur). Skemmtilegur, fræðandi og gagnlegur fyrirlestur á
margan hátt. Hún lagði upp helstu byggingaþætti hinnar hefðbundnu sögu með
vilja persónunnar, bresti hennar, hindranir og bjargvættinum. Þættir sem ég held að sé gaman að þekkja en þarf líka að brjóta upp. Það sem ég hjó
sérstaklega eftir var umfjöllun hennar um kaós. Hún sagði að líklegast þarf
höfundurinn að ganga í gegnum sömu hluti og persónur hans, að á einhvern hátt
muni það speglast. Og að kaós sé mjög mikilvægt í ferlinu þ.e. að persónan og
höfundurinn missi algjörlega fótanna, sjái engan tilgang, missi von, missi
tökin og upplifi algjöra óreiðu. Þegar persónan/höfundurinn kemst í gegn getur
viðkomandi séð tilgang, jafnvel æðri tilgang, í ferlinu og hvernig allt hefur
breyst. Í því samhengi benti hún á einhvern sem tók viðtöl við fólk sem fékk
sjúkdóm og glímdi við veikindi og að þar væru þrjú atriði sem hver og einn
þyrfti að fara í gegnum: 1. Fyrstu fréttir teknar inn en fólk ætlar samt að
komast í gegn og þetta verði allt í lagi og hafi engin áhrif. 2. Algjört kaós
og vonleysi. 3. Líður betur og sér tilgang með öllu saman, sér breytinguna sem
reynslan hefur knúið fram. Það sé hins vegar mjög algengt að fólk fari beint
frá fyrsta stiginu yfir á það þriðja og sleppi við óþægindin sem fylgir
kaósinu. Hins vegar sýni rannsóknir að þessir sjúklingar eru lengur að ná sér
andlega eftir veikindin heldur en þeir sem fóru í gegnum kaós. Áhugavert.
[Línur, strik, hringir, krass, flækja.]
Forðunarfíkn ýtir óreiðunni burt. En svo er spurning hvort
það sé ekki líka einhver tegund af forðunarfíkn sem verður til þess að ég
eltist við svona viðburði í stað þess að sitja kyrr og skrifa? Halda inn í óreiðuna, á móti straumnum. Merkilegt hvað
tjáningarþörfin er misjöfn á milli daga og líka mismikil þörfin fyrir að varpa
henni síðan út í rýmið, rúmið, tómarúmið, óreiðuna. Fögnum óreiðunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli