mánudagur, júní 30, 2014

Jafnvægi í heimi hormónanna

Fyrir nákvæmlega 10 árum síðan sat ég oft í sófanum í Engihjallanum með lítinn stelpuunga á brjósti. Þá átti ég það til að kveikja á sjónvarpinu og HM í fótbolta var það eina sem var í boði. Yfirleitt get ég ekki setið kyrr undir svona leikjum, þarf að vaska upp eða ranka við mér að mæna út um gluggann. Ég sökk sem sagt inn í þennan heim fyrir 10 árum, sat kyrr og lærði að meta boltann. Fljótlega sá ég að allt getur gerst. Sá möguleiki skapar svo mikla spennu því allt getur gerst.

[Mynd af bolta á grasi.]

Núna heyri ég óminn af heimsmeistarakeppninni, sé veggjakrot um alla netheima, fréttamiðla, sjónvarpsskjái á veitingastöðum og hróp og köll. Að ekki sé talað um lætin þegar Alsírbúar vinna. Um daginn fögnuðu þeir/þau (virðast bara vera karlmenn) til kl. 3 um nóttina með gargi og bílflauti á Signubökkum. Fánar blöktu úr bílrúðum.

[Mynd af öskrandi körlum.]

Núna fer keppnin að ná hámarki og ég hef áhyggjur af ójafnvæginu sem þetta skapar í hormónaflæði heimsins. Í heiminum er núna allt of mikið af testósteróni, karlorkan tröllríður heiminum. Við þurfum jafnvægi, þurfum hlýju og blíðu og meira estrógen. Kvenorku. Á milli leikja þyrftu að vera beinar útsendingar frá brjóstagjöfum eða dansi. Það getur ekki verið gott að keyra karlhormónin upp í svona miklar öfgar. Samsetning hormóna stjórnar deginum okkar og er kokteill sem blandar sér saman sjálfur, í þeim hlutföllum sem æviskeiðið, tíðahringurinn eða eitthvað allt annað stjórnar.

[Mynd af blúndum og fjöðrum.]

Ég bið bara um estrógen á skjáinn, meira estrógen fyrir heiminn.

Engin ummæli: