Í gærkvöldi stökk ég í Metró, þræddi mig frá línu eitt yfir á fjögur og stökk upp á yfirborðið í hverfi sem er allt öðruvísi en það sem ég bý í. Svolítið eins og að koma til annars lands. Við götuna sem ég fór eftir voru hárgreiðslustofur í röðum og inni á einni þeirra sátu allir makindalega, horfðu upp í loftið eða ofan í síma og hárlubbarnir um allt. Gólfið var loðið. En ég hélt áfram eftir götunni yfir í dansstúdíóið til að dansa 5 rytma dans. Dansaði í tvo klukkutíma með um 70 manns - við flæddum, spörkuðum, kýldum, hrisstum, svitnuðum og svifum um rýmið (finn ekki fleiri orð í augnablikinu, þau koma kannski á eftir). Allir hlógu, brostu og kannski féllu nokkur hljóðlát tár. Úr flæði yfir í stakkató yfir í kaós yfir í lýrík yfir í kyrrð. Það er næstum ekkert fallegra í heiminum en sjálfsprottinn dans. Þar sem líkaminn fær að taka yfir, rafboðin í höfðinu fá hvíld, og hreyfingin tekur völdin. Svo nauðsynlegt að losna úr viðjum rökhugsunar.
Dansinn kemur upprunalega frá Gabriellu Roth og hér er myndband sem útskýrir fyrirbærið:
Og svo er hægt að finna kennara um allan heim og stökkva á línu eitt yfir á fjögur, fara í jörðina og upp aftur, í flugvél, lest eða bíl og dansa. Dansadansa og dansa. Á eyjunni köldu er líka hægt að dansa - sjá hér: http://www.dansfyrirlifid.is/en/
Í ferlinu verður hreinsun, opnun, útrás og traust. Eitthvað óvænt, eitthvað nýtt. Hlýtt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli