föstudagur, ágúst 26, 2005

Í nótt ætla ég að forðast ískrið í hliðinu

Sendibréf úr sveitinni
Ungur maður sá yfirsjónum yfir umkomuleysi mínu og bauð mér gistingu á bæ sínum. Hér býr hann einn með hundinum sínum og feimnin við kvenkynið alveg að sliga hann. Ég lagðist til svefns í annars hrörlegu gestaherberginu og fékk fiðring í fingurna að taka til hendinni. Og það var strax um morguninn sem ég stóðst ekki mátinn að rétta fram hjálparhönd þar sem hann böglaðist við að sjóða hafragraut fyrir næturgestinn. Er á leið rétti ég hverja hjálparhöndina af annarri og það varð að þegjandi samkomulagi að ég fengi að vera. Hann lét snarlega af allri gestrisni enda engin þörf fyrir slíkt. Tók að mér skrælnuð pottablómin, fitugar eldhúsgardínurnar og saurugt salernið. Ég ílengdist og bókstaflega kippti öllu í liðinn. Ungi maðurinn virðist kunna þessu vel og tekur framkvæmdum mínum af æðruleysislegri þögn. Andvarpar í tólið þegar háöldruð móðir hans reynir að fjarstýra honum af elliheimilinu. Og setur mæðu í röddina um leið og hann samþykkir allt hennar mál. Hundurinn er búinn að taka mig í sátt enda kræsilegir afgangar í dalli hans á hverju kvöldi. Hann flaðrar upp um mig á morgnana þegar ég staulast fram úr gestaherberginu. Þá er ungi maðurinn þegar sestur, tiplar fingrunum á borðið og bíður eftir hafragrautnum. Svona er nú komið fyrir mér þessa dagana og sem ég skrifa þetta bréf sit ég alklædd í rúminu með töskuna við hurðina. Í nótt mun ég hverfa og ungi maðurinn mun vakna í fyrramálið og bíða mín við borðið fram eftir degi. Smám saman mun hann þó minnast mín sem vorfuglsins ljúfa sem fór á miðju sumri. Í nótt ætla ég að forðast ískrið í hliðinu og klifra yfir girðinguna. Ég mun ganga niður á veg og reka út puttann. Síðan mun ég vinda mér að fyrstu ungu konunni sem ég mæti og bjóða henni hressingardvöl á bæ unga mannsins. Svona sé ég um aðra og verð nú að ljúka bréfinu því hundurinn er farinn að hrjóta í næsta herbergi. Hafðu það nú gott Ufsi minn og skilaðu kveðju til Jónsa.

Þín einlæg
Sigga

Engin ummæli: