mánudagur, ágúst 01, 2005

Barkahlymur

Núna er ég búin að hósta í eina viku og þreyta farin að segja til sín. Það var orðið erfitt að anda þangað til ég fékk pensilín uppáskrifað vegna guls hors sem væntanlega er orsök sýkingar í nef- og ennisholum. Neðst á lyfseðlinum stóð: ein ljóðabók með hækum, eitt ljóð þrisvar á dag. Í apótekinu fékk ég staut með tvílitum pillum og bókina ,,Leðurblakan og perutréð" eftir Yosa Buson (í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar). Núna sest ég niður 3x á dag, gleypi eina pillu og les eina hæku. Og þegar vikukúrnum lýkur verður mér um megn að vita hvort það var pensillínið eða hækurnar sem lækkuðu rostann í hóstanum. Kannski verð ég orðin fíkinn í hækur og mæti til lækna um allan bæ í von um fleiri.
Hóstinn er mjög ljótur því ég hósta með barkanum (get reyndar líka talað með barkanum) þannig að hlymur minn er eins og frá versta skrímsli. Mér varð ljóst í dag að þetta útilokar t.d. það að ég geti sest niður á fínum veitingastað og skorið pent mína steik með rymjandi drunandi hóstahávaða glymjandi um sali. Ef þú lesandi góður heyrir álengdar djúpar hryglur og sérð hor flæða um stræti þá er skrímslið ég ekki víðs fjarri.

Engin ummæli: