föstudagur, ágúst 19, 2005

Vika í sumarbústað

Þá er ferðalagi sumarsins lokið. Dvaldi í heila viku í sumarbústað (án veraldarvefs og annars vafsturs) og gott að geta bara valið um rás 1 eða rás 2 þegar útvarpið glumdi heilu og hálfu dagana um litla timburhúsið. Yfirleitt varð rás 1 fyrir valinu og einn daginn gátum við skötuhjúin ráðið gátuna um fugl dagsins. Annars ótrúlegt hvað þarf lítið til að gleðja smáborgarasálir sem okkar. Uppþvottavél, heitur pottur og grill eru hin heilaga þrenning smáborgarans. Grillið er faðirinn, uppþvottavélin sonurinn og gufan sem stígur úr pottinum er heilagur andi. Annars stóðum við í ströngu í uppeldi 18 mánaða dóttur sem hefur ekki ennþá lært að umgangast drullupolla. Að mínu mati á maður að stappa vel í pollunum og láta þar við sitja, hún vill helst leggjast niður, dífa andlitinu ofan í og fá sér sopa.

Engin ummæli: