þriðjudagur, desember 26, 2006

Tsunami

Í dag eru tvö ár liðin frá flóðbylgjunni á Indlandshafi. Hér er ókláraður texti sem ég skrifaði í kjölfarið.

Með titrandi tsunami tár

Lítið rumsk á botninum og skrímslið vaknaði af dvala. Reis upp og æddi af stað í allar áttir, í einu. Öskraði niður í djúpið svo dimmt og svart að enginn heyrði nema næmir fiskar og dýr til stranda. Bungaðist yfir hafflötinn og þegar kom að landi setti það upp vegginn og skellti sér yfir allt sem á vegi þess varð. Gekk á land og murkaði lífið úr hverri tóru.

Á landakortinu eru dregnar öruggar línur milli lands og sjávar og tunglið togar hafið fram og til baka. En hafið gekk á land og át lítil börn, óheppna ferðamenn og fátækt bóndafólk. Sölumaður sólgleraugna hvítnaði með munninn fullan af sjó. Sóldýrkandi sá sólina aftur, liðinn. Kornabarn sveif með straumnum úr örmum. Sárfætt kona stóð í rústunum, leitandi ellefu barna sinna. Ellefu brosandi munna, tuttugu og tveggja dansandi fóta.

Áður en aldan kom sogaðist sjórinn frá landi. Þúsundir spriklandi fiska lágu á þurru landi og fólkið þeysti út að ströndinni, til að týna fiska og taka myndir. Til að ganga í opinn dauðann.

Ég týndi úrinu mínu, giftingarhringnum, skóm og sokkum. Ég týndi barninu mínu. Ég týndi lífi. Hef ekki ennþá fundið það, er í þann veginn að gefa upp alla von. Í þann veginn að týna líka voninni. Ég mun aldrei í lífinu gleyma táraflóðinu sem ég drukknaði í. Þeir sem stóðu og horfðu á okkur deyja dóu líka, lífsþorstinn hvarf og sorginn gekk á land og murkaði lífslöngun úr öllu kviku.

Heilar breiður af blómum. Þúsundir blóma á þúsund ofan. Með titrandi tár, sem tilbiðja guð sinn og deyja.

sunnudagur, desember 24, 2006

Kveðja



Til hamingju með jólin til ykkar beggja sem gægist hér inn. Ég gat ekki valið á milli þessara gömlu jólakorta, þau fá því bæði að fljóta með. Hafið það sem best með von um viturlegt bloggbull á nýju ári. Njótið og þakkið!

miðvikudagur, desember 20, 2006

Vaskr maðr

Nú er höfuðið á mér að springa af fróðleik um Íslendingasögurnar. Prófið verður ekki fyrr en kl. 13:30 á morgun og eftir það byrjar jólaundirbúningurinn fyrir alvöru. Jólarykið hefur dreift sér um alla íbúð og kannski fær það bara að vera áfram, jólaryk er betri kostur en jólastress. Og nýlega tók ég þá viturlegu ákvörðun að vera ekki í skóla á næstu önn heldur setja kennsluréttindanámið á salt og leyfa því að súrna vel í einhvern tíma. Þá get ég notið þess að lesa allt sem tönn á festir og geta valið sjálf bókakostinn (ég fæ vatn í munninn).

miðvikudagur, desember 06, 2006

Mig grunar að síminn minn sé hleraður. Það er alltaf einhver draugur á línunni, niðurbældur hósti. Stundum heyri ég andardrátt í miðjum allegorískum samtölum um veðrið. Við móðir mín erum alltaf jafn undrandi á því hvað veðrið er ólíkt í Keflavík og Kópavogi. Nú mun ríkissaksóknari eflaust biðja sýslumanninn hér í bæ að rannsaka málið - nú þegar ég hef tjáð grundsemdir mínar. Og ég mun biðja um gagn-hlerunarbúnað á símann.

föstudagur, desember 01, 2006

Bergmál genesis

Upprisa Nykurs orðin að veruleika og fyrsta nykraða ljóðabókin komin út eftir langt hlé. Mæli með Endurómun upphafsins eftir ungskáldið Arngrím sem er líka hátíðlegur íslenskunemi (sem hefur vonandi lesið Mín káta angist eftir Guðmund Andra Thorson).

Mæli líka með öllum þessu óþekktu, örstuttu en bráðskemmtilegu Íslendingasögum með liggja í gömlum bókum á bókasöfnum um allt land. Las nýlega Króka Refs Sögu og mæli með henni.

Annars er ég sjá fyrir endann á svakalegri vinnutörn þar sem mörg hundruð blaðsíður af skemmtilegum útboðslýsingum áttu hug minn allan. Þar komu slökkvikerfi, yfirborðsfrágangur, kúlulokar og fleira kræsilegt við sögu og nauðsynlegur kokteill að blanda ljóðum og Íslendingasögum við lestur hvers dags.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Das Flugzeug fliegt morgens



Jaja - Frankfurt hier komme ich!! Fer með fullar töskur af fornritum með nútímastafsetningu. Rútan fer frá blikksmiðjunni kl. 4:15 á eftir. Og ég rétt náði ferðabókum um Suður-Þýskaland í Gerðubergi áðan. Mér finnst ég alltaf komin heim þegar ég stíg inn á bókasöfn. Og þegar ég stíg inn í flugstöðvarbyggingar fer maginn á flug. En þegar ég sný aftur heim eftir nokkra fjarveru finnst mér heimili mitt alltaf jafn undurfagurt og hreint. Þórðar saga Hreðu og Hrafnkels saga Freysgoða munu ylja mér í flugvélum og rútum. Þeir munu hjálpa mér að fikra mig eftir ókunnugri borg - das fremde Stadt!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Til hamingju með daginn, tungubrjótar og aðrir tann-bryðjendur!


Ég gerðist aldrei svo fræg að heimsækja Rockville. En keyrði þúsund sinnum eftir Miðnesheiði framhjá kúlunum. Einn dagðinn spurði ég mömmu hvað væri í kúlunum og hún tjáði mér að þar byggi Jón í Kúlunum sem tekur börnin sem borða ekki matinn sinn. Og þegar ég ólundaðist við fiskinn, hrognin eða lifrina þá var Jón í Kúlunum á næsta leiti. Ég sá hann alltaf fyrir mér sem stóran og feitan karl sem hljóp á ógnarhraða eftir hrauninu inn í Sandgerði að sækja matvonda krakka.
Ekki fyrir svo löngu keyrði ég Miðnesheiði og þá voru kúlurnar gufaðar upp. Og Jón með þeim. Kannski sestur að í Ameríkunni. Tyggjandi Wrigleys á götuhorni.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006


Þessi dama er hrærivélin í lífi mínu. Hrærir hjarta mitt. Fyllir út í lífið og hraðar gangi tímans. Hrærir hugsunum í aðra hringi en áður og dansar í endalausa hringi.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006



Þá er tími bókafíkilsins runninn upp! Vá hvað mig langar að smakka allt þetta nýja nammi! En eins og í fyrra þá kemst ég vart yfir annað en Bókatíðindin (sem gerir mig kjölfróða) og að snúast í kringum sjálfa mig.


fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Títt

Ósköp lítið að frétta. Næstu 5-6 vikurnar verður lokatörnin fyrir skólann og meira en nóg að gera á öðrum vígstöðvum. Skipti í gær um bás í vinnunni og baulaði inn í mér. Sagði upp áskrift af lottó og gerðist áskrifandi að veltukerfinu á www.spara.is. Stefni sem sagt á að verða rík með því að borga skuldirnar upp hratt - ekki með því að vinna í lottó. Það tók mig hálfa mínútu að gerast áskrifandi að lottó en til að segja sig úr áskrift þarf maður að skrá sig inn, finna uppsagnareyðublaðið, prenta það út, skrifa undir og skila því inn á næsta sölustað og þar mun það liggja í um 4 vikur þar til það verður sótt - en til að safna ekki upp gremju þá hringi ég þangað strax í fyrramálið og kvarta af stakri kurteysi.
Reyni að lesa Njálu á milli tarna á meðan upprifjun á Eyrbyggju bíður mín og lestur á Hrafnkels sögu og mörgum fleiri. En lykillinn að jafnvægi í stressinu eru bæn og hugleiðsla - mín uppskrift að sívaxandi hugrekki og lífshamingju!

fimmtudagur, október 26, 2006

Fréttatilkynning


Áhugafólk um sæskrímsli (eins og t.d. Nykur) og annað skepnufóður athugi þetta.

mánudagur, október 16, 2006

Tobacco Castello



Ferðin var frábær og of langt mál að segja alla ferðasöguna. Ferðaðist með Njólu og las Njálu í flugvélum. Sólin og sandurinn heilluðu í Viginia Beach og mannflóran var skemmtileg í Boston. Og alls staðar góður matur og nóg af honum.

Hef síðustu sex árin alltaf annars lagið leytað að uppáhalds-píputóbakinu hans pabba þegar ég er á flandri í útlöndum. Tóbakið kemur frá ítalíu og heitir Castello. Ég hef spurst fyrir í Barcelona, Kaupmannahöfn, London, Búdapest, Vín og núna síðast í Boston. Og það er hvergi fáanlegt.

Í tóbaksbúðinni í Boston kom eigandinn askvaðandi af lagernum þegar hann heyrði orðið castello innan úr búðinni. Hann upplýsti mig um að tóbakið er afar sjaldgæft en að Castello pípurnar séu hins vegar algengari. Að lokum mokaði hann sýnishorni úr krukku og leysti mig út með bæklingi og nafnspjöldum. Því ef pabbi vildi kaupa notaðar Castello pípur þá gæti hann reddað því. Fastakúnnar ráfuðu inn í búðina og kveiktu sér í stórum vindlum. Það var einhver horfinn sjarmi yfir þessari búð. Einhver sál sem finnst ekki í flóðalýstum verslunarkjörnum.

fimmtudagur, september 28, 2006

Vopnin kvödd, Jökla kvödd, ljósin kvödd

Það var gott að upplifa svartnættið á eigin skinni á þessum svarta degi. Pabbi hristi höfuðið með símtólið á eyranu þegar hann sagði mér áðan að stundum finnst honum aðrir lifa á annari plánetu en hann. Þegar hann var polli voru ljósin alltaf slökkt á þorpinu kl. 12 á miðnætti og kveikt aftur kl. 8 næsta morgunn. Mamma er að vinna til kl. 22 og við urðum sammála um að hún yrði að fikra sig heim með náttsjónina að vopni og hann ætlaði að ganga á móti henni (vonandi fóru þau ekki á mis í myrkrinu). Karlarnir frá Orkuveitunni sem þurftu að slökkva ljósin hafa kannski hrist höfuðið eins og pabbi.

Þegar ljósin voru loksins kvödd (tala ekkert um hinar kveðjurnar) fengu auglýsingaskiltin enn meiri athygli og á skýjuðum himninum sveimuðu flugvélar eins og stjörnur. Og svo tóku flugeldarnir við. Í myrkrinu er einhver dulin afhjúpun - heilög stund eða tryllt af ótta, allt eftir andlegu ástandi hverju sinni. Ég held við þolum illa myrkrið, viljum frekar horfa á stjörnuljós og flugelda en blikandi stjörnuhiminn. Rafsuðublind af skjáum.


miðvikudagur, september 27, 2006

Spenna




Það styttist ískyggilega í næsta mánudag. En þá fer ég með Bergljótu vinkonu minni á ráðstefnu leynifélagsins í Virginia Beach í Bandaríkjunum. Mér skilst að hið harða haust sé þegar komið upp að ströndinni með 27 gráðu hita - júhúu!! Ráðstefnan verður eflaust mikil upplifun og kærkomin reynsla! Í bakaleiðinni stoppum við nokkra daga í Boston og þyngjum ferðatöskurnar ef það reynist hagstætt. En sem sagt tvær úr tungunum á leiðinni í fyrstu Ameríkuferðina og mikil spenna byrjuð að magnast upp. Verst að ég er með örlítinn fyrirfram-aðskilnaðarkvíða frá dótturinni. Ætli við komum til baka í snjóþvegnum gallabuxum, með hamborgararass og rúllur í hárinu?

sunnudagur, september 24, 2006



Tilvitnanir í Woody Allen sem ég fann á netinu.
Ótrúleg kaldhæðni á köflum.


I took a speed reading course and read War and Peace in twenty minutes. It's about Russia.
(Quote and Unquote)

If only God would give me some clear sign! Like making a large deposit in my name at a Swiss bank.
(Selections from the Allen Notebooks, New Yorker)

I sold the memoirs of my sex life to a publisher - they are going to make a board game out of it.

The only time my wife and I had a simultaneous orgasm was when the judge signed the divorce papers.

If you're not failing every now and again, it's a sign you're not doing anything very innovative.

There are two types of people in this world: good and bad. The good sleep better, but the bad seem to enjoy the waking hours much more .

Interestingly, according to modern astronomers, space is finite. This is a very comforting thought - particularly for people who can never remember where they have left things.

My love life is terrible. The last time I was inside a woman was when I visited the Statue of Liberty.

My parents were very old world. They come from Brooklyn, which is the heart of the Old World. Their values in life are God and carpeting.
(Woody Allen: Clown Prince of American Humor)

And my parents finally realize that I'm kidnapped and they snap into action immediately: they rent out my room.
(Woody Allen and His Comedy)

laugardagur, september 23, 2006

Á básunum allt í kringum mig eru alla jafna vélaverkfræðingar að teikna flóknar myndir af túrbínum og öðru kræsilegu (að ég held). Allir eru með þykkar bækur í hillunum frá námsárunum sem eflaust þarf stundum að grípa í. Þetta fékk mig til að hugsa hve gaman væri að hafa vinnu þar sem maður getur raðað námsbókunum upp (og ekki drukknað í þeim heima hjá sér). Þá væru hillurnar mínar fullar af trúartextum, Ágústínusi, Aristótelesi, Snorra Sturlusyni, málfræði, bókmenntasögu, Ingvari Sigurgeirssyni og Howard Gardner. En hvað væri ég að gera? Jú eflaust að teikna flóknar myndir af nýrri heimsendakenningu (sem liti út eins og túrbína).
Áðan setti ég námsbók um Excel í hilluna mína, afar stolt. Og minni mig á að við sitjum öll á básum eins og beljur og þráum ekkert nema hamingju og einhvern snefil af innri ró.

miðvikudagur, september 13, 2006

Freeze panes

Þegar ég sinni heilalausu tölvuverkefni í vinnunni þá kveiki ég á www.ruv.is og hlusta á útvarpssöguna Inferno í lestri Hjalta Rögnvaldssonar. Og set síðan reglulega á pásu og finnst eins og Hjalti bíði þolinmóður bak við skjáinn og haldi svo áfram þegar mér hentar.
Á kvöldin horfi ég sem fjarnemandi á upptökur úr tímum í Íslendingasögum og set kennarann á pásu þegar ég þarf eitthvað að sýsla. Blaðra í síma, fá mér súkkulaði og kveiki svo aftur á kennaranum þegar mér hentar. Nútíminn í öllu sínu veldi - og þegar ég fæ nóg af tækninni verð ég mér kannski úti um fjós og handrit og sest niður við lestur (við tólgarkerti á myrkum vetri).

laugardagur, september 09, 2006



Enn og aftur er ég sest í stofu 201 í Árnagarði. Hvenær ætli ég vaxi upp úr stofu 201? Ætli ég sé of sólgin í öll óvæntu hugrenningatengslin sem verða til í skólum? Í vetur verð ég með annan fótinn í íslenskum miðöldum og hinn í pappírsflóðinu sem fylgir Hellisheiðarvirkjun - skemmtileg blanda þar! Orðaforðinn mun samanstanda af köppum og valkyrjum íslendingasagna, íslensku máli að fornu (eins og það leggur sig), holutoppum, gufuskiljum, svörtu pípuefni og slatta af flönsum. Og auðvitað mun ég stunda þá forréttindavinnu að fá að bæta andlegt heilbrigði mitt og umburðarlyndi (ekki veitti af) og eiga gullmolastundir með erfingjanum.

föstudagur, september 01, 2006


Þá er búið að panta sumarbústað yfir eina hausthelgi. Enginn fær að koma með nema tölvan. Og kannski líka Sufjan, Sigurrós og fullir pokar af góðum mat. Og Músur. Heimsóknir og símtöl vinsamlegast afþökkuð þá sömu helgi.

mánudagur, ágúst 28, 2006

Sökum orðdoða fær þessi gamli prósi að fljóta hingað



Grasið sem breiddi sér yfir þær var alltaf grænt

Það skrjáfaði og hvíslaði grasið í garðinum. Blómin belgdu út brjóstin og sveifluðu mjöðmunum í golunni. Krossarnir báru þess merki að vindurinn hafði slegið þá svipuhöggum, en það var ómögulegt að geta sér til um hvað þeir höfðu sér til sakar unnið. Virtust ekki til neins líklegir þar sem þeir uxu úr gröfunum eins og sjónaukar kafbáta. Fuglarnir höfðu augljóslega reynt að drita þá niður, en án árangurs. Þeir höfðu staðist árásirnar og horfðu niður á tærnar á þeim sem lá undir moldinni. Þefuðu moldartáfýlunni að sér og fylgdust með þegar ný gröf var tekin. Margir þeirra höfðu ekkert nafn letrað á sig og engin blóm vaxandi undir handakrikunum. Þeir horfðu á tærnar á konum sem höfðu verið of góðar við alla í kringum sig. Því um leið og þær höfðu geispað golunni dóu allir ættingjar þeirra úr sorg og leiðindum. Eflaust vegna þess að þá var enginn eftir til að skipa fyrir verkum með harðri hendi. Elda matinn, segja sögur og prjóna hlý föt til að lifa veturinn af. En grasið sem breiddi sér yfir þær var alltaf grænt. Og fuglarnir höfðu sleppt krossum þeirra undan stórskotahríðinni. Rétt eins og um hlutlaust griðarsvæði væri að ræða. Stundum snérust krossarnir í hringi þegar þær kíktu út um kafbátasjónaukann, horfðu á sólina standa roðnandi upp og dáðust að sígrænni grasgröfinni. Sumar voru orðnar óþolinmóðar í biðinni eftir vegabréfsáritun.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Modern brainwash



Búin að hlusta á þessa plötu í nokkra daga - svona rétt til að tékka á þessum Sufjan Stevens. Og þegar það koma í ljós að mér líkar tónlistin ansi vel (þökk sé heilaþvottinum) þá sá ég að það er uppselt á tónleikana í nóvember - jæks!

Óritskoðaðar gamlar glæður


Á meðan vatnskassinn
jafnar sig
býr handklæðið sig
undir átök



Óðagotið
þegar óvæntan
gest ber að garði


Kaffilyktin í loftinu
hefur alltaf eitthvað
að segja


Spýtandi munnvatns-
kirtlar þegar kakan
er borin
úr ísskápnum


Ánægjan yfir
spegilmyndinni
þegar punkturinn er
varalitaður yfir i-ið


Þegar dregið er fyrir
og kveikt á lampa
breyta skuggarnir
um lögun


Regnbarið bárujárn
í logni
gefur tjald-
tilfinningu

sunnudagur, ágúst 13, 2006



Mæli eindregið með Eyrbyggju fyrir þá sem hafa gaman af hrollvekju, átökum og blóði (og geta yfirstigið flókin ættartöl og allt of mörg mannsnöfn sem byrja á Þor..). Sögusviðið er Snæfellsnesið. Nú hefur Rigning í Nóvember tekið við og lofar mjög góðu enda Auður Ólafsd. snillingur að mínu mati eftir að ég las hina lítt þekktu bók Upphækkuð jörð.
Annars hefur streptokokka sýking sett hömlur á bloggbull og almenna vellíðan síðustu daga. Það fer vonandi að lagast þökk sé sýklalyfjum.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Tiltekt




í geisladiskahrúgunni varð til þess að ég enduruppgötvaði Violent femmes fyrir nokkrum mínútum. Er búin að dusta rykið af spólu sem rúllar í segulbandinu (jú þau eru ennþá til) en það er eina útgáfan sem ég á af bestu plötunni þeirra. Skemmtilega hress og hrá tónlist sem kemur mér alltaf í gott skap. Mæli sérstaklega með lögunum Blister in the Sun og Add it up (for old times shake).

mánudagur, júlí 31, 2006

Var



að uppgötva sáluhjálp skokkarans. Hljóp með fisléttan ipod og Prodigy gerði sporin léttari. Fór allt frá Metallicu til Presley í litlu 15 mínútna skokki. Er aðeins að reyna að koma mér úr húsi til að stækka vöðvana og fá líf í kinnarnar. Og fimmtán mínútur duga til þess að ég arka út á svalir til að kafna ekki innandyra, verð fjólublá í framan en með hamingjusamt, stækkandi hjarta. Vonandi sparkar tónhlaðan mér oftar út úr húsi.

sunnudagur, júlí 30, 2006

Vopn í útrýmingarhættu



er fyrirsögn sem ég vil sjá í fjölmiðlum. Þjóðir heims ættu að einbeita sér fyrst að því að útrýma vopnum til að geta útrýmt fátækt í heiminum. Þegar þjóðum og þjóðarleiðtogum finnst í lagi að eiga vopn og eyða mannslífum þá stafar jörðinni ógn af þeim. Það hefur orðið 80% gengisfelling á kærleika og umburðarlyndi í heiminum og markarsvirði haturs og hefnda hefur aukist. Sendum óvopnaðar kærleikssveitir inn á skrifstofur þjóðarleiðtoga. Hver er glæpur barnanna í Líbanon sem eru stráfelld þessa dagana??
Rakst fyrir tilviljun á þessa síðu.


Ég hef ekki kveikt á eldavélinni síðan á miðvikudaginn. Lækjarbrekka á fimmtudag, Indian Mango á föstudag, brúðkaupsveisla Nönnu og Sigga í gærkvöldi og læri hjá tengdó í kvöld. Ég lifi í líkamlegum og andlegum vellystingum!!

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Upprifjun



Ég er með teflonheila sem hrindir öllu frá sér. Þess vegna sit ég núna sveitt yfir fróðleik um Þingvelli og Skálholt því á morgun fer ég með fróðleiksþyrsta ferðalanga um uppsveitir Árnessýslu. Er föst á nýja Skálholtsvefnum þar sem maður getur drukkið í sig söguna. Mig langar alltaf að kynnast tímaflakki, geta breytt mér í flugu og hangið á fjósavegg eða kirkjuvegg þegar ég les svona lagað. Til dæmis hefði verið gaman að suða á glugganum þegar Brynjólfur Sveinsson handlék dýrmæt handrit áður en hann sendi þau út til danakonungs. Eða sveima yfir mykjuhauk þegar Jóni Gerekssyni var drekkt eða suða skoðun mína yfir nýhöggnum hausamótunum á Jóni Arasyni og sonum. Ég þarf að komast í kynni við uppfinningamann sem sendir fólk aftur í tímann í líki flugna.

laugardagur, júlí 22, 2006

Fréttir af ferð og hugmynd

Framundan er bíltúr í Skagafjörðinn með stoppi í matskálum við þjóðveg eitt. Hópur af fólki (þar sem ég þekki nokkra) ætlar að fara í raft en við mæðgur skottumst um tjaldstæðið á meðan. Keyrði Reykjanesbrautina um daginn og fékk hugmynd að nýrri glæpasögu. Sagan er um konu sem skrifar glæpasöguna ,,Þjóðvegur eitt" og hlýtur Gaddakylfuna í smásagnasamkeppni. Konan fer síðan að lenda í ýmsu furðulegu við akstur þar sem vörubílar og flutningabílar reyna ítrekað að keyra hana niður. Að lokum finnst hún látin í vegkantinum á Reykjanesbraut... En sem betur fer eru sumar hugmyndir ekki merkilegri en svo að þær rata í lítið blogg og ekki meira. Hvert ætli sé hlutfallið (í prósentum) af góðum eða lélegum hugmyndum sem maður fær - kannski spurning um að leyfa hugmyndum að vaxa á meðan sumar hugmyndir hafa enga vaxtamöguleika. Jæja nóg komið af of mörgum orðum.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Bragi í Eden

er látinn. Maðurinn sem byrjaði að selja grænmeti við þjóðveginn og húsmæður úr höfuðborginni flykktust austur. Síðan byggði hann Eden, þetta fyrirbæri sem er eins og skot úr bíómynd eftir Fellini. Ég fer reglulega með ferðamenn í Eden og það er skrítin tilhugsun að geta ekki bent þeim á gráhærða manninn bak við afgreiðsluborðið sem byggði húsið.

Þegar ég var krakki dvaldi amma mín í Hveragerði og ég var mjög sátt við það því þá komst ég reglulega í Eden og tívolí, það var toppurinn á tilverunni.
Minningin um Braga lifir á meðan Eden fær að standa og slitnu stólarnir prýða matsöluna.

þriðjudagur, júlí 18, 2006



Ein af þeim mörgu gloríum sem ég hef fengið í gegnum tíðina var að kaupa Eyrbyggju á ensku til að slá tvær flugur í einu höggi - viðhalda enskunni og lesa íslendingasögu. Síðan þá hefur bókin legið ólesin í hillunni.
Klárað Skugga vindsins á Akureyri í síðustu viku og var mjög ánægð með bókina. Upplifði í miðju ferðalagi þann tómleika að hafa enga bók að leita til. Þegar ég er heima bölva ég öllum ólesnu bókunum sem taka tíma minn frá skriftum en þegar ég hef enga nærtæka þá er eins og eitthvað vanti. Byrjaði á Eyrbyggju (á íslensku) um leið og ég kom heim til að vera betur undirbúinn fyrir miðaldabókmenntastappið næsta haust.

Á morgun fer ég í nýju vinnuna að semja um kaup og kjör. Var að spá í að fara með hárið í tagl og tala djúpum rómi. Gæti kannski híft kaupið upp um einn launaflokk við það að setja á mig bláa bindið sem ég keypti í Englandi árið 1995. Kannski ég dembi á mig rakspíra.

Ef einhvern vantar enska útgáfu af Eyrbyggju þá látið mig vita.

sunnudagur, júlí 16, 2006



Gaddakylfa er komin á píanóið í dulargervi blómavasa - fínt að grípa til hennar ef innbrotsþjófar mæta. Líður stundum eins og laumufarþega um borða í glæpaskipi. Annars var fríið fyrir norðan fyrirtak og blíða annan hvern dag en rigning hina. Brúðkaup Nonna og Rósu í gær að Hólum var alveg glæsileg veisla og takk fyrir okkur!

laugardagur, júlí 08, 2006



Þá hefst ferðalag til Akureyrar, veðurspáin segir rigning. Ljúkum ferðinni í brúðkaupi á Hólum (vonandi í brakandi blíðu). Það verður gaman að sjá hve fljótt internet-fráhvarfseinkennin segja til sín. Áhugasamir um ,,diskóey vestur af Grænlandi" (orðabókarlýsing á kvenmannsnafni) fylgist með Kastljósi næsta þriðjudag.

miðvikudagur, júlí 05, 2006



Fyrir þau ykkar sem eruð á leið til suður Englands mæli ég með þessu hóteli. Lily Langtry hefur eitthvað verið að ásækja mig og vill að ég skrifi pistil um sig.

Annars er allt að gerast á þessum dimmu júlídögum. Míkrafónninn besti vinur minn í vinnunni og á morgun fæ ég tækifæri til að segja þjóðsöguna um Marbendil í annað skipti í sömu vikunni. Komin með nýja vinnu. Rigningin dunar. Síðasta sunnudag gekk ég til fundar við fortíð mína og hitti sjálfa mig fimm ára. Alltaf nýr ótti til að yfirstíga. Úði og rigning handan við næsta hól. Næsta vika verður frí á Akureyri með stuttri dagsferð í höfuðborgina, sem hljómar furðulega öfugsnúið. Og rigning.

fimmtudagur, júní 29, 2006



Þá er búið að landa miða á Nick Cave í september, þökk sé Sólveigu vinkonu minni. Taugatitringur í nokkra mínútur en síðan mikil gleði!!

þriðjudagur, júní 27, 2006

Síðasta...



Bráðum hætti ég að feta í fótsport Einsteins. Og hætti að klóra mér í höfðinu yfir teikningum eins og þessari. Síðasta vinnuvikan og allt er ,,síðasta" eitthvað. Síðasti þriðjudagurinn, síðasti fundurinn, síðasti kaffisopinn... Og 8 ára uppsafnað drasl af pappír, tölvupósti, gulum miðum og bréfklemmum eiga hug minn allan.

föstudagur, júní 23, 2006

Krækja

Æ ég kann ekki að setja krækjur inn á síðuna. Set eina hér og hver veit nema fleiri komi síðar. Hér er bloggið hennar Díönu, hún er andlegur lærimeistari minn og ég mæli með pælingum hennar.

laugardagur, júní 17, 2006



Lauk lestri á Sumarljósinu eftir Jón Kalman fyrir stuttu, hef kvatt hópinn og keyrt út úr þorpinu. Ég er byrjuð að ráfa um Römbluna og fleiri götur í Barcelona í fylgd Skugga Vindsins.

föstudagur, júní 16, 2006

Vaktir



Áhugaverð vika að baki. Stóð vaktina síðasta laugardag í Kolaportinu og seldi mannflóru góss og glásir. Á mánudaginn fékk ég glimrandi góðar fréttir sem verða opinberaðar hér síðar. Sama dag fór ég í Landsbjargargalla og stóð vaktina fyrir framan Egilshöll. Fór síðan inn að sjá Roger Waters og til að komast alveg upp að sviðinu var ég í skærgulu vesti með orðinu ,,gæsla" - það var furðuleg staða. Waters var flottur en mér fannst verst að fá ekki að vera með snarkandi talstöð.
Það sem eftir lifði vikunnar fór í rigningasudda og vinnu. Pælingar feykirófunnar viðhalda stöðugu sumri í sálinni.

sunnudagur, júní 11, 2006

sunnudagur, júní 04, 2006

Yfirvarp



Hlustið á þetta (mæli með "I dont wanna grow up") við lesturinn.

Í gær fór ég með dótturina út á leikvöll og varð svo yfirmáta þakklát fyrir yfirvarpið sem ég hef núna. Get rólað til himna og æft stökkin á mölina. Gleymi mér í sandkassanum og missi mig í kökuskreytingar. Rifja upp þekkinguna á viðskiptafræðinni í búðarleikjum. Fæ aftur fiðringinn í eltingaleikjum. Sór þess eyð í rennibrautinni að hætta aldrei að leika mér, sama hversu ,,barnalegt" það þykir.

Hver veit nema ég smakki sand í næstu ferð?

fimmtudagur, júní 01, 2006

Hágæðagrilltangir



Þeim fækkar skiptunum sem ég hlusta á eitthvað annað en Útvarp Latabæ og þá hellist ótrúlegur fróðleikur til mín úr bílaútvarpinu. Heyrði í morgun að ef ég kaupi Toyota Corolla þá fylgir stór grillpakki með þar sem m.a. eru hágæðagrilltangir. Hvernig tangir ætli það séu? Fjarstýrðar? Eða með ljósi svo hægt sé að grilla í myrkrinu næsta vetur? Ég sökkvi mér ofan í ómerkilega auglýsingar þessa dagana, mæni á auglýsingaskilti og syndi um bloggheima - geri allt til að gleyma úrslitum kosninganna.

föstudagur, maí 26, 2006

Hrun á skipulagi

Framtíðarplön síðustu 6 mánaða hrundu í gær, fæ ekki að útskrifast vegna skorts á einingum (og dómgreind ónafngreindra). Þegar eitthvað hrynur geta óvæntir hlutir vaxir úr rústunum - allt fer eins og þá á að fara. Ég skima eftir arfa eða grasi í rykmekkinum.

Keyrði framhjá ungum sjálfstæðismönnum í dag og fylltist gremju (best að fara ekki út í þá sálma). Finnst sorglegast af öllu að í velmegunarþjóðfélaginu okkur þá er normið hinn hrausti, vinnandi karlmaður og allt annað er utanveltu og mætir afgangi á einhvern hátt: konur (fá flestar lægri laun en karlkynið), börn, aldraðir, öryrkjar.

föstudagur, maí 19, 2006



á tveimur vikum hefur grasið grænkað
Aspirnar eru að taka við sér í Asparvogi
(þær eru að ná yfirhöndinni í Kópavogi, kosningarnar næstu helgi verða blekking)
Keilir og Trölladyngja út um stofugluggann

mánudagur, maí 15, 2006

Sögur úr nóttinni



Stundum koma hversdagslegar en bragðgóðar sögur til manns úr óvæntum áttum. Eftir örstutt innlit í bæjarlífið síðustu helgi ákvað ég stuttu eftir miðnætti að taka enga áhættu og setjast inn í næsta leigubíl. Þar sem leigubílaspjall getur verið jafn skemmtilegt og það er þurrt þá prufaði ég að brjóta ísinn með því að spyrja ,,lítur ekki bara út fyrir rólegt kvöld?" og bílstjórinn svaraði: ,,jú það er öruggt þegar fréttist að þú hefur yfirgefið svæðið" - þar með náði hann að bræða mig.
Ég ræddi við gamla karlinn um samanburð á bílamenningu á Íslandi og Þýskalandi og ýmislegt fleira.
Þegar bíllinn keyrði inn í myrkrið á Nýbýlaveginum kom sagna-andinn yfir bílstjórann og hann rifjaði með hláturgusum upp þessa sögu:

Þegar ég var að keyra með konunni minni í Þýskalandi þá rákumst við eitt kvöldið á íslenskan bíl í miðju Þýskalandi. Það var augljóst að bílinn var frá Íslandi því hann var með gamalt og gott J númer. Svo skemmtilega vildi til að ég átti hjá mér gamlan sektarmiða í vasanum og ég laumaði honum undir bílþurrkuna á þeim íslenska (hláturgusa). Síðan biðum við átekta til að sjá viðbrögðin hjá eigandanum en ekkert bólaði á honum. Þar sem við vorum tímabundin urðum við að fara og gaman hefði verið að sjá svipinn á eigandanum (hlátur). Við vitum ekki enn hvort eigandinn var íslenskur eða þýskur.

Kannski er gamli íslenski sektarmiðinn sem rataði á íslenska bílinn í Þýskalandi ennþá stór ráðgáta í lífi einhvers.

föstudagur, maí 12, 2006



Ef ég fengi að ráða þá væru helgimyndir frá miðöldum upp um alla veggi í íbúðinni minni. Ég hef hins vegar sætt mig við ljósmynd af ölduróti við klappir í Nýju Mexíkó sem gætu allt eins verið úr ólgandi íslenskri fjöru.

þriðjudagur, maí 09, 2006



Ljóðið er sest niður
í formi misturs

vorið er bara yfirvarp

fimmta frumefnið er
að taka bólfestu

heimsyfirráð
skríður handan
við húshorn

fimmtudagur, maí 04, 2006

Allt milli himins og jarðar

Er það eina sem mér datt í hug sem titill því mig langar að segja frá ýmsu merkilega ómerkilegu. Við mæðgurnar röltum í rokinu í morgunn á leikskólann. Á leiðinni var ekki þverfótandi fyrir ánamöðkum. Ábyrgðarfull móðirin benti dótturinni á undur náttúrunnar en átti síðan fullt í fangi með að vera góð fyrirmynd og trampa ekki á verslings skriðdýrunum. Hvað gerðist? Af hverju komu þeir upp í nótt/morgunn? Hvernig bárust boðin á milli þeirra?

Tilboðum um ókeypis skólagráður rignir hingað inn og hver veit nema maður láti freistast. Efast þó um að ég geti pantað kennsluréttindanám og leyfisbréf til að vera kennari á netinu. Það væri þó þægilegt að losna við þetta púl að þurfa að frumlesa um 80% af efninu og hamast við að leggja á minnið kenningar og karla fyrir prófið í næstu viku. Og komast upp með það, taka fínt próf og gleyma síðan herlegheitunum viku síðar. Þetta er dæmi um slæman vana sem maður heldur ósjálfrátt í af því að maður hefur komist upp með það hingað til. Vonandi verður raunin ekki önnur í ár.

Örlítið af orð-skrímslum sem ég hef heyrt. ,,Endursölugóður" er farið að heyrast í bíla-auglýsingum, hvað er nú það? Og ,,íbú(ð)alýðræði" er eitthvað sem frambjóðendur tönglast á og ég skil ekki heldur hvað þýðir. Sjálfstæðisflokkurinn lofar ,,fleiri gæðastundum" - hvað er nú það? er þetta kosningaloforð sem er hægt að standa við? Annars er orðskrímslið ,,heildarlausnir" að hjaðna í auglýsingum en það hefur valdið mér miklum kvölum að heyra það. Mikið hefur maður það gott þegar maður hefur ekki undan öðru að kvarta en furðulegum orðskrímslum sem mæta manni á stangli.

föstudagur, apríl 28, 2006

Þegar orðin taka völdin, á kvöldin


Ég hef óbeit á leiðinlegur ritgerður og leiðinlegur ritgerðarsmíðum. Þess vegna er ég að reyna hið ómögulega, þ.e. að gera ritgerð um hræðilega leiðinlegt efni að spennandi og skemmtilegum texta. Í ritgerðina eru komnar hugleiðingar um fræ (ekki bagalegt fyrir guðfræðinginn) og hún er byggð upp eins og ferðalag þar sem lesandanum er reglulega bent út um rúðuna til hægri eða vinstri handar (ekki bagalegt fyrir leiðsögumanninn). Skrifin eru líka óvissuferð því áfangastaðurinn er óljós og næsta setning ókannað land. Þetta stefnir í vitleysu. Endar með árekstri úti á víðáttu! Orðin eru að taka völdin.

mánudagur, apríl 24, 2006

Með dauðann á hælunum

Þessi hefur eflaust fengið beina þýðingu á orðinu Skaftárhlaup á engilsaxnesku (shaft-year-run kannski?) og haldið að áin mundi hlaupa hann uppi.

laugardagur, apríl 22, 2006

Hamfarahlaup í sálinni


Finn hvergi prósann um göngu við rætur Eyjafjallajökuls sem ég lofaði hér fyrr. Textar eiga það til að gufa upp úr tölvum - kannski sem betur fer. En í tilefni þess að hlaup er komið í Skaftá þá dustaði ég rykið af gömlum texta um hlaup í annarri á. Það er óttalegt svartnætti í þessum texta, en svona koma hann bara. Þessi prósi á heima í safni prósa sem allir fjalla um náttúruhamfarir á einhvern hátt - hefur allt legið í salti í 2 ár enda erfitt viðfangsefni.

Skeiðarárhlaup
Dill og aðrar viðkvæmar jurtir

Þegar dillið lafir og drýpur í átt að dauðanum, sækir hann vatn í ofboði, verður viðkvæmur og meyr í fjósinu og drýpur í átt að fjalli ofan af traktornum. Þá má ekkert koma upp á til þess að hann riðlist ekki úr jafnvægi, til þess það heyrist ekki smellur í höfðinu og flóðgáttir opnast, hamfarahlaup í jökulá hefjist. Þá er nóg að traktorinn þenji sig, hrúturinn sendi óræða augngotu eða að svart ský sveimi yfir fjallinu, þá brestur á. En þá daga sem dillið sperrir sig, horfir út um gluggann og bætir litlum sprota við sig, syngur hann fyrir hrútinn, mokar flórinn af gleði og heyrir ekki drunur og bresti traktorsins. Þá daga þrífur hann stígvélin og horfir með lotningu til fjallsins helga. Sendir því sterka strauma og jafnvel bænir, og kallar það sínaífjall sálarinnar. Og dillið heldur áfram að drjúpa og sperrast, á víxl.
Hann sparkaði af alefli í traktorsdekkið, sendi fjallinu puttann og meig ofan í ómokaðan flórinn. Danglaði stígvélunum af sér og lét þau þeytast inn í fatahengið og tók til við að hella upp á kaffi, með látum. Smellurinn í höfðinu var löngu þagnaður, mesti jökulruðningurinn farinn að sjatna. Mallið í kaffivélinni sefaði hann, lægði vindinn, svo hann settist við eldhúsborðið og nokkur tár hrundu. En síðan þurrkaði hann kinnarnar og harkaði af sér. Gerði sér ferð að stofuglugganum og sá að dillið var að jafna sig og að þau tvö virtust ætla að halda daginn út. Hann girti sig og hellti slurk af rommi út í kaffið og kom sér fyrir í slitnum stólnum. Í sjónvarpinu sá hann fréttir af hamfaraflóði, Skeiðarárhlaup sópaði vegi og brú á haf út, barðist áfram í sótsvörtum beljanda. Eitthvað bærðist innra með honum eins og hann vissi hvernig ánni liði, þekkti þær hömlur sem bresta fyrr eða síðar.
Uppsöfnunin í Grímsvötnum hafði gefið eftir, ruðst inn í síkvika ánna og lagt hana undir sig. Aurvatnið braut niður lönd og brýr en byggði upp sandsléttur og aura, í sárabætur. Og sandurinn stækkaði og tíbráin breikkaði á björtum dögum og ekkert fyrir Skúminn annað að gera en að hvílast á sandinum, setjast að á Ingólfshöfða og verja höfðann fyrir ágangi ferðamanna. Að lokum, mörgum dögum síðar, sjatnaði jökulhlaupið en dillið og maðurinn í slitna stólnum höfðu ekkert veður af því.
Því morguninn eftir upphaf hlaupsins svipti hann sænginni af sér og fór á brókinni beint fram í stofu. Dillið var dautt í stofuglugganum og hann fór út í fjárhús og skaut sig. Með kindabyssu og hrúturinn sendi óræða augngotu.

föstudagur, apríl 14, 2006

Ártúnsbrekka í vestur á aprílmorgni

Borgin stækkar og fjallvegum fjölgar. Og eftir því sem byggðin þéttist þá eykst fjarlægðin á milli fólks. Að keyra um borgina er eins og að keyra á afskekktum fjallvegi þar sem fjöllin gnæfa yfir og mannkynið í órafjarlægð. Hér kemur einn gamall:

Það er einhver móska í morgunskímunni þennan aprílmorgun. Ég keyri Ártúnsbrekku í vestur og umferðin svo mikil að mér finnst ég stödd í ókunnugri borg í öðru landi. Svona borg sem er eins og skímsli, dreifir úr sér um allt og sjóndeildarhringurinn ekkert nema hús. Og ég finn hvernig aksturslag forfeðranna seytlar um æðar mér. Mér finnst ég keyra traktor eftir troðningum. Rígheld með báðum höndum um stýrið, skima til beggja hliða svo ég festi dekkin ekki í holu eða missi jafnvægið á þúfu. Samstundis þykknar móskan í skímunni og ég finn aksturslag miðalda krauma í mergnum. Stýrið er beislið mitt, bremsan og bensíngjöfin ístöðin og hnakkurinn er með rafmagnshitarann í botni. Ég segi ,,hott, hott”, sparka í bensíngjöfina og rykki í beislið en hann stöðvar ekki þó að ég togi og togi í stýrið. Hnúarnir hvítna og blóðið hverfur úr höndunum og ég toga af öllu afli. Traktor eða hestur, skiptir það máli? Á hverjum morgni hef ég enga stjórn á ferð minni vestur Ártúnsbrekku.

Þá er best að stranda á umferðareyju, kyssa næsta stuðara eða stöðva bílinn á miðjum vegi og ganga út af göflunum.

laugardagur, apríl 08, 2006

Gömul þrekraun á fjöllum


Í lok janúar árið 2003 fór ég í snjóhúsaferð til að geta orðið fullgildur félagi í hjálparsveitinni minni. Stefnan var tekin á Eyjafjallajökul og átti að gista eina nótt í snjóhúsi og halda svo aftur til byggða. Ég var klifjuð öllum vetrargræjum og hélt af stað upp brattann full eftirvæntingar, alls óviss um að broddar og exi yrðu mikið notuð næstu sólarhringa.

Við héldum góðum dampi upp snaran brattan og það var komið myrkur þegar loksins fannst snjóhúsavænn snjór við jökuljaðarinn. Og þá fyrst hófst vinnan. Moka, moka, moka og moka. Og halda áfram að djöflast á skóflunni. Síðan nærði maður sig og kom sér í poka. Hópurinn skiptist í tvö snjóhús og ég ákvað að troða mér í það snjóhús sem var fullt af mestu reynsluboltunum. Ég er rauðhærða manneskjan í brúnu lopapeysunni á myndinni - eitthvað að bardúsa við kvöldmatinn væntanlega.

Það var ósköp ljúft að sofa í snjóhúsinu og ekki sakaði að hafa loftgatið nálægt svo að ferskt loft barst til mín. Þangað til þakið byrjaði að bresta undan rigningunni kl. 6 næsta morgun.

Þá var mesta kúnstin að ná að klæða sig í full herklæði án þess að blotna of mikið. Smám saman stækkaði gatið og rigningin buldi á morgumatnum. Fólkið í næsta snjóhúsi svaf vært og ætlaði aldrei að drattast á lappir og út.

Þetta er síðasta myndin sem var tekin í ferðinni. Ég stóð í rigningunni og beið heila eilífð. Með snjóflóðaílinn innanklæða, snjóflóðastangir og línur á pokanum og ísexina tilbúna til höggs. Síðan val haldið af stað til baka. En þá fyrst byrjaði gamanið. Í stuttu máli komum við aftur til byggða snemma næsta morgun eftir stanslaust labb heilan dag og heila nótt. Við fórum sem sagt niður vitlaust gil og þurftum að príla upp mjög góðan bratta og fara nánast til baka. Nestið kláraðist fljótt og undir það síðasta deildu allir síðustu leyfunum. Aldrei hefur hnetujógurt bragðast eins vel og svalandi (vatnið kláraðist auðvitað líka). En það var sálfræðiþrillerinn sem reyndi meira á en hinar líkamlegu raunir. Því í hópnum voru óreyndir félagar sem höfðu aldrei lent í öðru eins, kveinkuðu sér, gáfust regluleg upp og heimtuðu að þyrlan yrði kölluð út. Undir það síðasta logaði á nokkrum höfuðljósum og við fikruðum okkur niður fjallið í myrkrinu og þurftum að leiða þá ljóslausu. Ég hélt við mundum aldrei ná aftur til byggða, þrammaði bara áfram og studdi ljóslausan félaga. Aldrei hefur verið jafn ljúft að komast í Seljavallalaug, klósett, kyndingu, mat og vatn.
Úr þessu varð til stuttur prósi sem ég set kannski hingað inn - þar sem tölvan mín er núna (sem fyrr) stödd á Reyðarfirði þá er allur slíkur texti víðsfjarri.